måndag 20 augusti 2007

Tango Del Norte

1.-5. ágúst var Tango del Norte haldin í Kaupmannahöfn í annað sinn. Markmiðið er að stefna saman þekkingu norrænna tangólistamanna sem hafa barist fyrir lífi tangósins af eldmóði árum saman. Framkvæmdastjóri og hugmyndasmiður hátíðarinnar er Gunner Svendsen einn helsti frumkvöðull Dana á sviði tangósins allt frá árinu 1991 ásamt Navinu Østergaard sem þá lauk rannsóknarritgerð um argentínskan tangó undir titlinum “Sentimentalitetens struktur”.

Trúarbrögð eða veðrið

- Munið að tangó eru ekki ein trúarbrögð heldur mörg! Við kennum þau sem við trúum á, segja dansararnir Mette Munk Andresen og Martin Pedersen með alvöru í glettninni. Þau eru menntuð í Estudio DNI, nútíma tangóskóla í Buenos Aires. Þemað er “Molinetti - varianter i den lille mölle”. Kennslustofan sirkustjald með parkettgólfi við menninngarmiðstöðina í Vanløse. Á þriðja tug leiðbeinenda frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Íslandi og Argentínu eru þar að störfum dagana fimm.

Hany Hadaya og Bryndís Halldórsdóttir voru að kenna í annað sinn á Tango del Norte. Það var gaman að vera vitni að námskeiði hjá þeim, færni þeirra er augljós, smitar stóran hóp nemenda með dansgleði. Bryndís kvað hátíðina fínt tækifæri fyrir tangókennara á Norðurlöndum til að hittast og kynnast í starfi. Á alþjóðlegum hátíðum er falast er eftir argentínskum gestakennurum, en norræn hátíð sækist eftir norrænum. Þetta er nýtt og aðdáunarvert framtak hjá Gunner staðfestir, Bryndís.

Marcella Troncoso er fædd og uppalin í Buenos Aires en býr og starfar í Málmey. Hún kennir gjarna einsömul og einn daginn leit ég við í tíma í kvennatækni hjá henni. Milli kennslustunda svaraði hún spurningu minni um hvað krefst til að fylgja vel í tangó. Hvað er mikilvægast?

- Að hlusta og samtímis að vera sjálfstæð. Það er mikilvægast. Að finna fyrir dansfélaganum en finna eigin leið til að bera ábyrgð á jafnvæginu. Og líka að leitast við að hlusta á tónlistina gegnum hann, samsama sig hans túlkun, því hann les gólfið gegnum þig ...

Þegar Marcella talar um “gólfið” þá talar hún held ég um það sem við stundum köllum jarðsamband, og um rými og orku. Og þegar ég læt eftir mér að spyrja hvort hún finni mun á því að kenna norðurlandabúum og fólki sem býr á syðri breiddargráðum eða í Argentínu fæ ég líka svar eftir smá tog. – Jú norrænt fólk túlkar öðruvísi. Það er ekki eins mikil hlýja ... faðmlagið er ekki neitt sjálfsagt þegar vinir hittast, fólk er formlegra hér, heilsar meira með handabandi. Norðurlandabúar eru ekki eins öruggir með sig í hreyfingum og það hefur áhrif á tjáskiftin milli dansfélaga, segir Marcella með svolítilli tregðu en bætir við: Ég held það sé veðrið sem hefur þessi áhrif.

*

Í höll Dofradrengsins

“Aldrei of grátt til að vera satt” eru einkunarorðin á heimasíðu hátíðarinnar. Þannig er vísað í melankólíu sem oft einkennir tangótónlist og kallar um leið á litríki.

Sjö hljómsveitir báru vott um skemmtilega grósku í tangótónlist í Skandinavíu. Og engin þeirra finnsk! CheTangoTrio er víðförul hljómsveit frá Árósum, hefur m.a. leikið í Rosario í Argentínu. Erling Kroners Drømmekvintet leyfir tangónum rétt að gægjast gegnum sinn jazz, og var að leika fyrir dansandi hlustendur í fyrsta sinn. Tre til Tango, löngu viðurkennt tríó meðal vandlátra tangódansara og ítalska Paolo Russo Duo heillaði fólk á fimmta og síðasta kvöldi hátíðarinnar (þá var ég búin að kveðja en fékk umsögn hjá Gunanri) . Frá Svíþjóð kom Orkesta Tipica Tangarte, hefðbundin og þaulreynd tangóhljómsveit undir stjórn gítarleikarans Juanjo Passo. Electrocutango og Tango for 3 komu frá Ósló. Tónskáldið Sverre Indris Joner stjórnar þeim báðum en Electrocutango varð til vegna tónsmíða hans fyrir TanGhost, leiksýninguna byggðri á Afturgöngum Íbsens og dönsum eftir Pablo Veron. Svo einhverstaðar var íbsenska myrkrið með í því tangóska þegar Electrotango lék fyrir dansi á Det ny Teater á fimmtudagskvöldið.

Tveggja tíma tónleikar tangókvartettsins Tango for 3 kvöldið eftir reyndust röð af músikölskum hápunktum og látlaus salurinn í Vanløse Kulturhus breyttist í höll. Þeir Sverre Indris við píanóið, Odd Hannisdal á fiðlu, Steinar Haugerud kontrabassa og Per Arne Glorvigen frá Dovre sem býr í París, töfruðu held ég flesta sem á hlýddu í nýjar hæðir. Per Arne er einn örfárra norrænna tónlistarmanna með bandóneonleik sem atvinnugrein og að eigin sögn sá fyrsti, nam hjá argentínska meistaranum Juan José Mosalini og náði að kynnast sjálfum Astor Piazzolla. Ung tónskáld hafa samið fyrir Per Arne og sjálfur útsetur hann fyrir hljóðfærið sitt. Hann er heimsþekktur fyrir samstarf sitt við fiðlusnillinginn Gidon Kremer.

Kvartettinn lék allt frá klassískum tangó eftir Aníbal Troilo (1914 – 1975) og til laga úr óperunni Maria de Buenos Aires eftir Astor Piazzolla. Einnig tónlist eftir Grieg, “I Dovregubbens hall” eða Í höll dofrans úr Pétri Gaut í útsettingu Indris og Ungverskan dans eftir Brams og Indris. Líka hugmyndaríkt samkrull úr Abbas Money, money, money og tangó eftir hinn þekkta tangópíanóleikara Osvaldo Pugliese. Allt varð leikandi létt og sveigjanleg tónlist án þess að tangóstemmingin glataðist.

“Frábærir tónlistarmenn, tangómyrkrið magnast með þessum húmor og maður druknar ekki í dýptinni ” hljómaði persónuleg umsögn Paul Utters, tangókennara frá Málmey sem hefur útsett tangótónlist og stjórnað eigin hljómsveit (Gotango sem er í hléi núna, vegna anna við eigin Tangoakademíu, sem hann rekur ásamt Maria Ingstad).

*

Hátíðadans í Falkoner Salen

Færir tangódansarar spinna oft sinn sýningardans á staðnum og sú var raunin á sýningu danskennaranna í Falkoner Salen á laugardagskvöldið. Augljóst er að Danir eiga flínka tangódansara: Aldo og Susanne Velásquez eru í stöðugri þróun og sameina þróttmikla snerpu, og góða tækni; Martin og Mette náðu fallegum samleik með rómantískum blæ í sinn nútímatangó og Lotte Thrane og Brian Falk frá Árósum sem ég hef ekki séð sýna fyrr, komu á óvart með hugmyndaríkri ró við eletrónínska tangótónlist. Argentínska Marcella Troncoso sem býr í Málmey er vanur sýningardansari og tróð upp með landanum Victor Hugo Diaz við undirleik Orkesta Tipica Tangarte. Þau sýndu að gantast má með hlutverkin; voru tveir dansandi karlmenn þar til sá minni reif af sér skeggið og jakkann til að breytast í konu; Hany og Bryndís birtust glæsileg að vanda með elegans í laufléttum colgadasveiflum og unnu hug áhorfenda á svipstundu. Sænsk- argentínska systkinaparið Jessica og Daniel Carlsson frá Lundi dönsuðu milonga, dálítið hraðari dans en tangó og tangóvals og sýndu undur músikalska túlkun í gáskafullum samleik.

Þá er aðeins helmingur dansaranna nefndur, en Helen Halldórsdóttir sem býr í Buenos Aires kenndi einnig og sýndi á hátíðinni í ár - með argentínskum dansfélaga, Martin Maldonado - bæði tangó og þjóðdansinn chacarera.

Allir leiðbeinendur eru kynntir á heimasíðunni. http://www.tangodelnorte.dk/

Næsta Norræna hátíðin verður haldin í Kaupmannahöfn 2010, en framkvæmdastjórinn Gunner Svendsen, mun ekki taka sé frí, hann stefnir að alþjóðlegu hátíðahaldi næstu tvö árin.


Inga kommentarer: