lördag 13 augusti 2011

Heimsins besti tangóari

Heimsins besti tangóari

Smásaga eftir Kristínu Bjarnadóttur

Langar þig til að dansa við heimsins besta tangódansara? heyrist mér hann segja - ¿Querés bailar con el mejor tanguero del mundo? - og dansgleði mín tyllir sér á tær þar sem við stöndum og bíðum eftir næsta tangó í heitri argentínskri haustnóttinni. Ég heyri ekki fleirtöluna, ekki heldur þegar hann endurtekur spurninguna á ensku:

Do you want to dance with the best dancers in the world?

Um hvað var hann að tala? Átti hann við sjálfan sig, sem ég dansaði við nú þegar? Undarleg spurning.

Vissulega var hann dansari að mínu skapi og norðurevrópsk og tangóþyrst sem ég er, ákvað ég fyrir nokkrum vikum að fyrstu sporin okkar saman yrðu ekki þau síðustu. Það var hér á sama stað, Salón Canning við Scalabrini Ortiz í gamla Palermo. Við könnuðumst við hvort annað frá námskeiði hjá Corina de la Rosa og Julio Balmaceda og hann bauð mér upp í miðri töndu eða fjögurralagasyrpu og kom mér á óvart með snerpu og kraftmiklum vindmyllum, snúningum sem umturnuðu mér í mylluvæng. Það fólst skondin ögrun í því að fylgja honum og næstu vikurnar var ég fljót að taka eftir hvort hann var mættur á sömu milongu og ég. Stundum komst hann ekki hjá því að taka eftir mér og það kom fyrir að við ferðuðumst saman á innanhússvegum tangósins. Þess á milli varð ég vitni að því hvernig hann gerði sig heimakominn á ólíkum milongum, tangódansleikjum, í Buenos Aires. Hann dansaði einatt með sömu einbeitingu að því er virtist, stundum manískt, hverja tönduna á fætur annarri við ólíkar konur frá því að nóttin var ung og sem þéttast var á dansgólfinu og þar til aðeins voru eftir þeir sem gerðu sig að kóngum og drottningum með því að vera um kyrrt. Héldu áfram að dansa þegar hljómsveitin hætti að leika og stundir geisladiskanna byrjuðu á ný. Þegar tími örstuttra spora - vegna umferðarhættu - var liðinn hjá.

Framan af nóttu gildir agaðasta sort af sósíal tangó á vel sóttum milongum. (Í Evrópu tala tangóunnendur um sósíal tangó til aðgreiningar frá sýningardansinum og Argentínumenn nota þá nafngift.) Fyrirframsamin kóreógrafía er óhugsandi, hún er spuni, sífelld leit að leið til að túlka tónlistina á mjög takmörkuðu gólfplássi. Samspilið hjá hverju pari fyrir sig sem dansar brjóst við brjóst, kinn við kinn eða enni við kinn, yrði krumpað ef ekki væri samstillingin milli ólíkra para á leið sinni mót sólu. Árekstrar eru nokkuð sem ekki gerist“ sama hve þröngt er á dansgólfinu. Að halda stílnum og stoltinu þrátt fyrir allar ytri takmarkanir, það er galdurinn meðal tangódansara, trúlega líkt og þegar tangóinn var að mótast, vaxa upp úr vanmætti og vonbrigðum í hverfum fátækra og aðfluttra við Rio de la plata. Að lifa við óöryggi er ekkert nýtt fyrir Buenos Airesbúa og þótt söngvarnir fjalli um sárustu svik og horfin skjól, má kannski líta á tangódansinn sem frjóa aðlögun, aðferð til að dreyma saman og gera sig óháðan morgundegi.

Líkt og á venjulegu hringtorgi og í mörgum samfélögum ertu rétthærri í innsta hringnum. Þar eru mistök hugsanleg í skjóli hinna ytri, þar leyfast lengri spor, ganchos, bóleos, smáskreytingar með fótum sem ekki halda sér við gólfið. Það er að segja ef enn er útrými í innsta hringnum. Þangað flýja bæði hömlulausir og viðvaningar sem ekki hafa tök á að laga sig að umferðinni mót sólu með spuna. Að vera sífellt viðbúin því að þurfa að breyta um átt, nema staðar, snúa hægrigíró upp í varlegan vinstrigíró, koma auga á möguleika stuttu sporanna svo þau verði ekki einhæfar endurtekningar. Hér - í tangósölum Buenos Airesborgar - virðast allir kunna þetta, sem væri það meðfætt. Já, hjá þeim sem eiga áratugi að baki á dansgólfinu! En það er ekki meðfætt. Ekki frekar en ákveðið talmál með orðum og setningarbyggingu. En möguleikinn er örugglega meðfæddur.

Sósíal tangó krefst hæfni og hugmyndaflugs og flestir hér í borg láta dansiböllin - milongurnar - eiga sig til að byrja með, nema þá til að sjá aðra dansa. Láta sér nægja dansæfingar jafnvel fyrstu árin meðan grunnlögmálin eru að hreiðra um sig í líkamanum. Til þess er svonefnd práctica síðdegis eða snemma kvölds. Hér á Canning er hefð fyrir sérstakri mánudagspráctica fyrir karlmenn, milli námskeiða. Ég komst að því með því að taka þátt. Óvart. Það var fyrsta mánudagskvöldið mitt í Buenos Aires og ég mætti snemma á framhaldsnámskeið hjá Gabriel Angio og Natalia Games. Ég sá karlmenn dansa við karlmenn og líka konur við karlmenn og vingjarnlegur náungi bauð mér að æfa með sér. Eftir smástund spurði hann hvort ég vildi prófa að stjórna. Við höfðum hlutverkaskipti og ég fór að taka betur eftir hvaða mynstur leiðbeinandinn var að fást við með aðstoð ólíkra drengja úr hópnum. Við héldum áfram að stjórna á víxl í kátínufullum tilraunum, meðan ég dáðist að því hve argentínskir karlmenn væru nútímalega sinnaðir. Og raunar hélt sú aðdáun áfram þótt ég kæmist að því að þetta var svokölluð práctica fyrir karlmenn. Konur tóku þátt sem jafningjar. Þegar sjálf kennslustundin hófst var svissað yfir í hefðbundna hlutverkaskipan, konur þjálfuðu sína fylgni og karlar stjórn.

Nálægðin krefst þess að mér líði vel með þeim sem ég dansa við og ég læri að láta mér líða vel með fleirum. Er að þróa tangóbók míns eigin líkama. Um leið læri ég að sjá ekki þá sem ég trúi ekki að mér geti liðið vel með einmitt núna. Kannski alls ekki þá sem ég ekki þekki eða hef ekki séð dansa. Í Buenos Aires er boðið upp með augunum. Spurningarmerki send með augabrúnunum ef þarf. Enginn á að þurfa í snuðferð að bjóða upp. Hefðin býður manni einfaldlega að hittast við jaðar dansgólfsins ef boðið er gagnkvæmt. Konan gengur stystu leið að dansgólfinu og bíður þar meðan karlmaðurinn tekur á sig lengri leiðina. Á hefðbundnum milongunum þykir dónaskapur að ganga að borði einhvers og bjóða upp með orðum. Meðal yngri kynslóðanna er það í lagi milli þeirra sem þekkjast og þá álíka mikið í lagi að segja nei.

Ef ekki væri cortínan væri flóknara að finna sér dansfélaga. Cortina kallast hið hefðbundna hlé eftir hverja töndu eins og tangósyrpan nefnist. Hver tanda er yfirleitt fjórir dansar, fjögur lög úr fjársjóði tangótónlistarinnar. Fjórir tangóar, fjórir tangóvalsar eða fjögur milongalög. (Og þegar minnst varir kemur rokksyrpa, ef ekki salsa og stundum argentínski þjóðdansinn chacarera.). Milongan er dansinn sem gefur tangódansleikjum nafn sitt. Orðið milonga hefur þannig tvíþætta merkingu. Hann er elsti dansinn í tangófjölskyldunni og krefst þess að tekið sé til fótanna á mun fjörlegri hátt en annars, hratt og mjög jarðbundið. Oft er talað um dansinn milonga sem móður tangósins, eða fyrirrennara ásamt candombe, dansi afróargentínara.

Í cortínunni fara allir af gólfinu. Slíkt þykir sjálfsögð kurteisi, rétt eins og það að skipta um dansfélaga. Að dansa við sömu manneskju tvær eða fleirir töndur í röð þýðir að þar eru hjón á ferð, kærustupar, alvöru elskendur eða verðandi elskendur. Flestir virða þá túlkun bæði á síðdegismilongum og fram eftir nóttu á næturmilongum. Eftir klukkan þrjú byrjar þyrpingin á dansgólfinu að þynnast og milli fjögur og sex geta undur gerst. Þá er gaman að dansa tónlist Osvaldos Pugliese. Upptökur frá fimmta áratug síðustu aldar. Og jafnvel Piazzolla.

Það rignir í nótt. Haustnótt í byrjun apríl. Gólfið á Canning hefur orð á sér fyrir að vera eitt af bæjarins bestu. En þakið lekur. Í Buenos Aires eru mörg þök sem leka í ár. Droparnir hraða sér í gegn, lenda yst á dansgólfinu fyrir framan borðin eins og til að minna á að það er kreppa. Að oft er þörf en nú er nauðsyn að tangóa sig áfram.

Á fjórða tímanum byrja ég að dansa við Alexander. Mér finnst að ég hafi ekki dansað við hann síðan aðfaranótt föstudagsins langa. Það voru síðustu töndurnar á Niño Bien og ég - löngu komin úr öllu fótafíniríi, berfætt í rykugum tuskuskóm með flötum dansleðurbotnum - gat lesið af svip nokkurra ungmenna sitjandi við borð að ég var frekar fyndin til fótanna.

Mér líður vel með þessum hávaxna tangómaníska manni, nú þegar tími löngu sporanna er kominn. Tími gáskans og dirfskunnar. Nálægðin er frelsi ekki daður þegar við dönsum. Hinu óskráða banni við boleo með fótinn hátt á lofti er aflétt. Og honum líður vel með mér. Getur leikið sér, leyft sér eitthvað nýtt sem hann veit ekki hvar mun enda, fylgt því eftir og komið bæði sér og mér á óvart. Það er auðvelt að fylgja honum og þegar ég misskil eitthvað spinnur hann úr því nýjan leik.

Ég vil dansa við þig aftur segir hann, ekki næstu töndu en þar næstu. Hvar verðurðu? Viltu vera þar sem ég sé til þín! Hann er í félagsskap ungra kvenna þessa nótt, trúlega á hans aldri nálægt þrítugu og ég sé að ein þeirra er eftir við borðið og bíður hans. Þau dansa. Í nýju faðmlagi. Skiptast á nýjum straumum. Hún nær honum í brjóst nett með japanska andlitsdrætti, varlegar hreyfingar. Kyrrlát. Leifturhratt lagar hann stjórn sína að hennar skapi, hennar líkama, hennar jafnvægi, þeirra möguleikum í sameiginlegum dansi. Og augnabliks eilífð síðar að öðrum möguleikum með mér.

Eftir aðra tönduna okkar ákveð ég að drífa mig, verða samferða kunningjakonum sem búa í San Telmo, þá get ég hoppað úr bílnum einhvers staðar á Congresosvæðinu þar sem ég bý. Ég er ánægð með kvöldið, búin að dansa við fleiri góða dansara. Finnst dónaskapur að bíða eftir fleiri töndum með Alexander og mig langar ekki til að dansa við aðra. Ég þarf að kaupa geisladiska að hafa með mér til Evrópu. Það er sölumaður á staðnum, Jorge sem keyrir leigubíl, selur heimabrennda diska með völdum sígildum tangóhljómsveitum, dansar til sín viðskiptavini og ekur þeim svo heim.

Ég var ekki búin að útvega mér neinn pottþéttan disk með Carlos Di Sarli og ...

Og svo í götuskóna.

Ég er búin að hafa skóskipti á öðrum fæti og komin úr dansskónum á hinum þegar ég sé hann í nokkurra metra fjarlægð. Hann horfir á mig! Stendur með afslappaða handleggi í biðstöðu skáhallt fyrir framan mig. Án svipbrigða. Kemur ekki nær. Þess þarf ekki. Ég veit hvað hann vill og það veit hann þegar ég mjaka mér aftur í dansskóna. Sérsaumuðu skórnir frá Farroni eru að verða góðir, farnir að laga sig að mér. Hann færir sig nær dansgólfinu og bíður þar.

Það er milli dansa þegar liðið er á fimmta tíma næturinnar, sem spurningin um heimsins bestu dansara kemur. Út af því að mér misheyrist tvisvar næ ég að hugsa er maðurinn með mikilmennskubrjálæði! Er hann með einhver ævintýraleg plön eða... kannski er hann enn betri dansari en ég hef gert mér grein fyrir. En heimsins besti? Hvað áttu við. Áttu við sjálfan þig, spyr ég loks til að verða einhvers vísari og til að vera kurteis.

Sleppum mér, segir hann um leið og við finnum hvort annað aftur í klassísku faðmlagi. Ég veit að hér er fólk sem finnst gaman að horfa á þig dansa við mig, en ég á við annað. Taktu þrjár sekúndur í að líta í kringum þig, þá sérðu heimsins bestu dansara á gólfinu.

Og ég stel smáathygli frá sjálfri mér, tónlistinni og dansinum til að reyna að giska á hvað hann meinar. Fabián Salas er kominn af stað! Svei mér þá, hann sem er búinn að sitja við borð næst dansgólfinu og spjalla við aðra miðaldra menn alla nóttina. En er hann heimsins besti dansari? Og við hverja er hann eiginlega að dansa! Ekki konuna sem hann sýnir með. Ég sé Dario, kornungan sýningardansara sem leigudansaði á Alþjóðlegu tangóhátíðinni þeirra Fabiáns og Gustavo Naveiras fyrir skömmu, en hann situr bara og spjallar þessa stundina. Á gólfinu varla nema sjö til tíu pör. Og við. Nei, ég sé enga þekkta dansara nema Fabián. Sum andlitin hef ég séð áður, en ... nei. Meira að segja parið sem tróð upp um tvöleytið er farið. Ezequiel og Sabrina sem á það til að hrista rassinn með skringilegum sjarma. Fyrir sýningardansara er um að gera að finna sín séreinkenni og gera þau sýnileg. Eins og Geraldina leyfir sér með glans. Vippar sér í splitt eða spígat þegar minnst varir, ekki í loftinu eins og ballettdansari heldur á gólfinu og eins og fjöður upp aftur. Stundum stígur hún augnablik í hælana þannig að háu skóhælarnir leggjast á gólfið og fótaburðurinn sýnist fullkomlega brenglaður eða götudanslegur. Geraldina er sú sem er mest í tísku núna, vinsælust af þeim sem troða upp á milongum, ung, svarthærð, mjúk, falleg og fullvissuleg. En hún er ekki hér. Ekki núna.

Hvað á maðurinn við? Um hverja er hann að tala og hver er hann sjálfur? Svari við síðustu spurningunni geng ég ekki eftir með orðum. Ég kalla hann Alexander og kannski er hann norðuramerískur Rússi að uppruna. Ég veit það ekki, né heldur hvort né hvenær hann er alkominn til Buenos Aires. Í fjórtánmilljónmannaborginni sem eins og vex, tútnar út í huga mér við að átta mig á hvað hann á við. Áttu þá við Fabián Salas?

Nei. Fabián dansar núna og það er óvenjulegt að sjá hann dansa á milongum. Ég á ekki sérstaklega við hann, ég er að tala um þessa heimsins bestu dansara sem njóta síðustu tímanna,fara seint út á gólfið og enginn sér þá. Þeir dansa ekki fyrir áhorfendur, njóta sín best þegar flestir eru farnir heim, dansa ekki fyrir aðra og enginn veit af þeim. Það eru heimsins bestu tangódansarar. Sérðu það ekki, þetta eru töfrar! Heimurinn hefur ekki hugmynd. Þú veist það. Ég veit það. Geymdu það bara með þér eins og persónulega minningu. Brot úr töfrum, segir Alexander, sem ýtir hnjánum á mér niður á við með handafli oftar en einu sinni, þegar annað hvort þeirra eins og festist í loftinu af undrun og í spurn yfir óútreiknanlegum snúningum hans og óvæntum áttum sem ég stranda í.

Ný lögmál voru tekin að ráða. Ég veit ekki hvað varð af þyngdarlögmálinu en ég veit að það reyndist mér öllu erfiðara að hafa skóskipti í annað sinn sem ég bjó mig undir að kveðja milonguna í Palermo þennan þriðjudagsmorgun. Ef til vill var það eins konar morð að yfirgefa töfrana meðan enn var fólk í þeim.

Buenos Aires, 9. apríl

©k.bjarnadóttir

Inga kommentarer: